top of page
Writer's pictureJean-Rémi Chareyre

Er hægt að kolefnisjafna flug?

Hver hefði haldið að flugiðnaðurinn og skógræktarbransinn gætu orðið bestu vinir?

Eitt af því sem okkur þykir afskaplega notalegt núorðið er að fljúga til útlanda í fríinu okkar (eða jafnvel að "skreppa" í helgarferðir). Okkur þykir svo vænt um það, reyndar, að við höfum verið að gera meira og meira af því á síðustu árum og áratugum. Árið 2018 var algjört metár en þá fóru Íslendingar í að meðaltali 2,8 flugferðir til útlanda. 83% landsmanna fóru í að minnsta kosti eina flugferð það ár, en það var tvöföldun frá árinu 2009, þegar aðeins 44% fóru til útlanda. Samkvæmt vefsíðunni ourworldindata.org erum við meðal verstu flugfíkla í heimi, í þriðja sæti á heimslistanum á eftir Sameinuðu Arabísku Furstadæmunum og Singapúr, og með losun upp á 1 tonn af CO2 á mann á ári.

Nokkur íslensk fyrirtæki eru farin að bjóða upp á "kolefnisjöfnun", sem felst í því að ferðalangurinn borgar fyrirtækið ákveðna upphæð fyrir að gróðursetja eins mörg tré og þarf til að "kolefnisjafna" losunina sem verður til við flugið. Það er vísindaleg staðreynd að skógar vaxa með því að binda kolefni, og geta því gegnt mikilvægu hlutverki í því að draga úr styrk kolefnis í andrúmsloftinu. En er þetta að virka? Geta flugfarþegar "tekið til eftir sig", eins og það er orðað á vefsíðu eins fyrirtækis, með því að borga öðrum til að planta trjám?


Svarið er nei, og fyrir því eru nokkrar ástæður:


1- Bindingin á sér stað miklu seinna en losunin. Ungar trjáplöntur binda lítið sem ekkert kolefni. Þar er ekki fyrr en eftir 15-30 ár að plönturnar fara að binda að ráði. Hlýnunaráhrif flugsins verða þá nú þegar búin að valda skaða í nokkra áratugi þegar lækningin byrjar að virka. Ef nágranni manns lætur hundinn sinn skíta á pallinn hjá manni og kemur svo eftir 20 ár að "taka til eftir sig", er ég ekki viss um að það sé hægt að kalla það "að taka ábyrgð á sínum gjörðum". Þetta á sérstaklega við þegar um neyðarástand er að ræða, eins og sannarlega á við hér: ef það er kviknað í húsi manns þá eru 20 ár aðeins of langur tími til að ná sér í slökkvitæki. Eina aðgerðin sem hefur áhrif strax er að draga úr losun með beinum hætti, sem sagt, að draga úr flugi. Kallið mig gleðispilli ef þið viljið, en það var ekki ég sem samdi lögmál eðlisfræðinnar.


2- Reiknivélar fyrir kolefnisjöfnun flugferða taka ekki mið af hlýnunaráhrifum frá öðrum gastegundum en koltvíoxíð. Heildarhlýnunaráhrif frá flugferðum eru hins vegar talin vera tvöfalt hærri en ef aðeins losun Co2 er tekin með í reikninginn. Það þýðir að jafnvel þótt "jöfnunin" takist þá jafnar hún ekki nema helminginn af hlýnunaráhrifum flugsins.




3- Það er vandasamt verk að spá fyrir og mæla kolefnisbindingu skóga (eða votlendis). Tré vaxa misjafnlega mikið og misjafnlega hratt við mismunandi aðstæður. Jarðvegur, úrkoma, sólskin, vindur, veðurfarsbreytingar, dýralíf, sjúkdómar og sníkjudýr, meðal annarra þátta, geta haft áhrif á því hvernig skógurinn plumar sig og hversu mikið hann bindur af kolefni. Ef spáin sem er gerð í upphafi reynist of bjartsýn þarf að bæta úr því með meiri gróðursetningu, sem tekur aftur 15-30 ár að skila sér. Í versta falli getur skógareldur eða alvarlegur sjúkdómur þurrkað út skóginn að hluta eða öllu leyti, þannig að bindingin er í raun aldrei tryggð.


4- Það er engin leið að tryggja að skógurinn verði aldrei felldur. Til þess að um kolefnisjöfnun sé að ræða þarf bindingin að vera varanleg, því losunin er varanleg. Það þýðir að skóginn má aldrei fella. Hvernig er hægt að ábyrgjast að skógurinn muni standa til eilífðar, nema að hafa aðgang að kristalskúlu? Það er vel hægt að ímynda sér aðstæður þar sem afkomendur okkar gætu ákveðið að fella skóginn: matvöruskortur á heimsvísu (ein líkleg afleiðing af loftslagsbreytingum) gæti leitt til þess að landsmenn þurfi að stórauka landbúnaðarframleiðslu hér á landi, en hvað ef það þarf að ryðja skóg til að fá nýtt land undir ræktun? Eða hvað ef einhver stjórnvöld í framtíðinni ákveða að það sé komið of mikið af skógi og ákveða af einhverjum ástæðum að fella hann að hluta? Það er vissulega hægt að setja lög til verndar kolefnisskóga, en lög er líka hægt að breyta (eða brjóta).


5- Ódýrar kolefniseiningar drepa hvatann til að draga úr losun. Ef fyrirtæki og einstaklingar hafa val um ódýra kolefnisjöfnun í stað dýrra fjárfestinga og erfiðra ákvarðana til að draga raunverulega úr losun, þá munu þau alltaf fara auðveldu leiðina. Ef neytendur hafa val um að annað hvort draga úr flugferðum eða kaupa ódýrar kolefniseiningar, þá munu þeir fara auðveldu leiðina. Þannig getur kolefnisjöfnun haft þveröfug áhrif við það sem ætlast er: við höldum áfram að fljúga sem aldrei fyrr, vitandi það að við getum keypt okkur ódýr aflátsbréf.


6- Ómögulegt að tryggja að meginreglan um viðbótargildi hafi verið virt. Þetta er líklega stærsti gallinn við hugmyndina um kolefnisjöfnun. Reglan um viðbótargildi (e. "additionality") þýðir að til þess að raunveruleg kolefnisjöfnun eigi sér stað þarf að tryggja að verkefnið sem um ræðir (skógrækt eða annað) hefði aldrei orðið að veruleika nema vegna þess að einhver keypti kolefniseiningar. En það er í reynd aldrei hægt að sanna með vissu að ákveðinn skógur hefði aldrei orðið til án aðkomu kolefnisverkefnisins. Skógur getur til dæmis orðið til af sjálfsdáðum (já, tré geta fjölgað sér eins og menn!), félagasamtök eða einstaklingar geta ákveðið að planta skóg, og síðast en ekki síst getur ríkið ákveðið að auka fjármögnun til gróðursetninga (í gegnum Skógrækt Ríkisins). Og þá má spyrja sig: ef árangur kolefnisjöfnunarverkefna yrði slíkur að skógrækt á Íslandi myndi stóraukast, gæti það ekki orðið til þess að ríkið haldi að sér höndum í sínum gróðursetningaráformum? Ef svo er, þá er ekki um hrein viðbót að ræða, því hluti af því skógi sem hefur verið gróðursettur hefði hvort sem er orðið til, nema kannski annars staðar og á vegum ríkisins frekar en einkafyrirtækja.


7- Hugtakið "kolefnisjöfnun" byggir á falskri hugmynd um "annað hvort eða". Viðskipti með kolefniseiningum ýta undir þá hugmynd að við getum valið: annaðhvort að draga úr losun, eða "kolefnisjafna". En vísindamenn eru einmitt að segja okkur að við þurfum að gera bæði: draga stórlega úr losun OG auka bindingu. Til þess að vera í góðu formi þarf maður bæði að hreyfa sig og tileinka sér hollt mataræði: það er ekki annaðhvort eða.


Af öllu þessu ætti að vera ljóst að hugmyndin um "kolefnisjöfnun" er í besta falli óskhyggja, en í versta falli hættuleg afvegaleiðing. Henni fylgir svo mikil óvissa að engin leið er að tryggja að loforð um aukna bindingu standist kröfurnar. Hér fyrir ofan var aðallega fjallað um skógarræktarverkefni, en verkefni tengd endurheimt votlendis þjást af svipuðum ágöllum (fyrir utan það að vera fljótvirkari). Fyrir nokkrum árum gerði Evrópusambandið úttekt á árangur kolefnisjöfnunarverkefna, en niðurstaðan hennar var að 85% af verkefnunum hafði mistekist að ná markmiðum sínum. Eftir það ákvað sambandið að hætta að leyfa aðildarríkjum að nota kolefnisjöfnun í sínu bókhaldi.

Hugmyndin um kolefnisjöfnun endurspeglar fullkomlega mótsagnarkennda nálgun okkar á loftslagsvandanum: við viljum leysa vandann en um leið erum við ekki tilbúin að gefa neitt eftir af þeim þægindum sem við höfum vanist, og þess vegna erum við í stöðugri leit að auðveldum lausnum sem láta okkur líða betur en skila lítinn sem engan árangur, og geta jafnvel gert illt verra með því að gefa okkur falska öryggistilfinningu.


Það er þar með ekki sagt að verkefni sem hafa að markmiði að auka bindingu kolefnis séu gagnslaus: þvert á móti er gróðursetning trjáa gríðarlega mikilvægt tæki í baráttunni gegn loftslagsbreytingum, og fyrirtæki sem bjóða upp á kolefnisbindingu gegn gjaldi eru sennilega flest að meina vel og reyna að leggja sitt af mörkum í þeirri baráttu. En til þess að árangur náist þurfum við sem fyrst að hætta að kalla slík verkefni "kolefnisjöfnun", og koma í veg fyrir að flugfélög og önnur fyrirtæki geti boðið upp á aflátsbréf í formi kolefniseininga. Ef einstaklingar vilja styrkja bindingarverkefni, sem er sannarlega lofsvert, þá verður það að gerast óháð kaupum á flugmiðum eða annari losandi vöru og þjónustu, og frekar en að kalla það "kolefnisjöfnun" væri heppilegra að tala um "framlag til kolefnisbindingar".

Vanræksla á eigin börnum er ekki hægt að "jafna út" með peningagjöf til góðgerðarstarfsemis. Sömuleiðis getur framlag til kolefnisbindingar ekki jafnað út eigin losun á gróðurhúsalofttegundum.

Comments


Post: Blog2_Post
bottom of page