Nýlega kynnti hinn rólyndi og bjartsýni fjármálaráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson fjárlagafrumvarp næsta árs undir yfirskriftinni „Þetta er allt að koma“. Samkvæmt fréttastofu RÚV sagðist ráðherrann sjá fram á bjartari tíma en mottóið mun hafa verið vísun í þá trú hans að vextir og verðbólga væru á leiðinni niður, auk þess sem afkoma ríkissjóðs ætti að fara batnandi á næstu árum.
Í fréttinni kom hvergi fram á hvaða forsendum spá ráðherrans var byggð. Má vera að í kjallara fjármálaráðuneytisins sé að finna kristalskúla sem aðeins ráðherrann hefur aðgang að, eða eru starfsmenn ráðuneytisins völvur í dulargervi? Ráðherrann hefur væntanlega aðgang að ýmsum hagfræðingum en það verður ekki sagt um þá að þeim gangi vel að spá fyrir um framtíðina, enda gátu þeir hvorki spáð fyrir um bankahrunið 2008 né um þá miklu verðbólgu sem geisað hefur síðustu mánuði og ár (hagfræðingar spá yfirleitt aðeins góðu veðri).
Hagvöxtur, hið heilaga gral stjórnmálamanna
Hingað til hefur bjartsýni alltaf borgað sig á endanum þar sem helsti bjargvættur stjórnmálamanna, hagvöxturinn, hefur skorið þá úr snörunni eftir hverja krísu. Eftir hrunið 2008 voru nokkur erfið ár, en fljótlega hófst mikill uppgangur í ferðaþjónustunni sem leiddi til þess að hagvöxtur varð töluverður á árunum 2012 til 2019, atvinnulausum fækkaði og staða ríkisins batnaði. En hvaða kraftaverk er nú á matseðlinum, sem gefur tilefni til þess að vona að „þetta“ sé allt að „koma“?
Stjórnmálamenn gera ráð fyrir að hagvöxtur komi alltaf aftur á endanum, enda hefur hann verið normið síðustu 200 árin eða svo. Sögulega séð er hefur efnahagsleg stöðnun hins vegar verið reglan og hagvöxtur undantekningin: fram að 1800 var hagvöxtur í heiminum lítill sem enginn (0,2% að meðaltali). Eftir 1800 fóru hjólin hins vegar að snúast hraðar og á 20. öld mældist hagvöxtur að jafnaði 3% ári, eitthvað sem forfeður okkar höfðu aldrei nokkurn tímann upplifað.
Alltof fáir virðast velta fyrir sér hvernig stendur á því að hagvöxtur birtist akkúrat á þessum tíma, eins og þruma úr heiðskíru lofti, og hvernig stendur á því að hagvöxtur fór síðan að hægja á sér á Vesturlöndum eftir 1970. Eins og sést á myndritinu hér að ofan fóru hjólin að snúast rétt eftir að við fundum upp jarðefnaeldsneytið. Hagvöxtur fór hins vegar að hægja á sér rétt eftir að olíuframleiðsla hóf að dragast saman í helsta olíuríki heims, Bandaríkjunum, árið 1972. „Tilviljun!“ gæti einhver sagt. Fylgni felur ekki alltaf í sér orsakasamhengi, vissulega. Þegar tilviljanir benda allar í sömu átt er hins vegar ekki óskynsamlegt að kanna orsakasamhengið.
Svona tilviljanir eru nefnilega ansi margar, eins og sú staðreynd að hagvöxtur á 20. öld var mestur einmitt þegar vöxtur í olíuframleiðslu var mestur (1945-1970), eða sú staðreynd að ferðaþjónustuævintýrið á Íslandi, og hagvöxturinn sem fylgdi því, fór í gang einmitt á sama tíma og Bandaríkin voru að ganga í gegnum nýtt olíuæði.
„Drill, baby, drill!“
Sögulega séð eru Bandaríkin helsti olíuframleiðsluríki heims. Eftir að bestu olíulindir landsins höfðu verið uppgötvaðar og nýttar fór olíuframleiðslan hins vegar að dragast saman í byrjun áttunda áratugarins og Bandarikin þurftu í sífellt meira mæli að reiða sig á framleiðslu annara ríkja. Óvenjuhátt olíuverð á árunum 2005-2010 reyndist hins vegar öflug gulrót fyrir olíuiðnaðinn þar vestra, og varð til þess að óhefðbundin vinnsluaðferð, svokallað „vökvabrot“ (e. fracking), sem hafði hingað til verið talin óhagkvæm, varð allt í einu arðbær. Upp úr þessu hófst eitt mesta olíuæði sem Bandaríkjamenn hafa nokkurn tímann upplifað. Olíuframleiðsla þeirra nær tvöfaldaðist á aðeins áratug, á meðan framleiðsla annara olíuríkja staðnaði meira og minna, og þjóðin varð aftur að fyrsta olíuframleiðsluríki heims.
En hvað hefur þetta með Ísland að gera, gæti glöggur lesandi spurt sig? Olían sem við fluttum inn kemur vissulega ekki frá Bandaríkjunum heldur frá Noregi. Vissulega, en olíumarkaðurinn er hnattrænt fyrirbæri. Aukin framleiðsla á einum stað á jörðinni leiðir til þess að meiri olía er til ráðstöfunar alls staðar á jörðinni (Domínó-áhrifin). Og þá víkur að íslenskri ferðaþjónustu: til þess að flytja ferðamenn til og frá Íslandi þarf olía, og mikið af henni. Það má því færa sterk rök fyrir því að ferðaþjónustuævintýrið á Íslandi hefði aldrei orðið nema þökk sé nýjasta olíuæðið í Bandaríkjunum.
Því miður fyrir ferðaþjónustuna, en sem betur fer fyrir loftslagið, eru sterkar vísbendingar um að olíuævintýri Bandaríkjanna sé komið á enda, og ólíklegt þykir að slíkt kraftaverk gerist aftur.
Eru allar auðlindir víxlanlegar?
Tengslin milli orku- og efnahagsmála eru nokkuð augljós, en hagfræðingar virðast vera blindir á slíkum tengslum. Fyrir því eru tvær ástæður. Sú fyrsta er að samkvæmt hefðbundinni hagfræði eru allar auðlindir víxlanlegar: verði skortur á olíu hlýtur „eitthvað annað“ að koma í staðinn. Það þarf þó enga doktorsgráðu til að átta sig á því að sumar auðlindir eru ekki víxlandlegar: ef við fáum ekki súrefni til að anda eða vatn til að drekka eru fá önnur efni sem geta komið í staðinn (nema að breyta víni í vatn…)
Hin ástæðan fyrir þessari blindni er lögmálið um framboð og eftirspurn sem hagfræðingar telja vera eins konar náttúrulögmál: samkvæmt því lögmáli leiðir minnkandi framboð af einhverju óhjákvæmilega til hækkandi verðs og þar af leiðandi hlýtur lágt olíuverð að vera merki um að nóg sé til af henni. En því miður á lögmálið um framboð og eftirspurn illa við þegar olían er annars vegar, og hér er skýringin á því:
Í samfélagi nútímans eru það fyrst og fremst vélarnar sem sjá um framleiðslu og flutning á ýmis konar vörum. Þessar vélar ganga fyrir orku, og stórt hlutfall þessarar orku er í formi olíu. Því minna af olíu sem er í umferð, því færri vélar eru í gangi (vörubílar, skip, vinnuvélar, flugvélar, o.sv.f). Ef færri vélar eru í gangi minnkar framleiðni vinnuafls (hver okkar hefur yfir færri vélar að ráða og hefur því minni framleiðslugetu). Þar sem framleiðni og kaupmáttur eru tvær hliðar á sama peningnum (eins manns framleiðsla er annars manns neysla) leiðir lækkandi framleiðni til lækkandi kaupmáttar (í formi verðbólgu og/eða atvinnuleysis). Lækkandi kaupmáttur þýðir að við kaupum minna af olíu, af góðu eða illu. Með öðrum orðum, minna framboð af olíu leiðir sjálfkrafa til minni eftirspurnar, sem þýðir að olíuverð getur haldist stöðugt þrátt fyrir minnkandi framboð.
Til að átta sig betur á þessu fyrirbæri getur verið hjálplegt að bera olíu saman við aðra náttúruauðlind: drykkjarvatn. Ímyndum okkur 100-manna samfélag sem hefur aðeins aðgang að einni vatnslind, og þar sem vatn gengur kaupum og sölum á frjálsum markaði. Ímyndum okkur að til að byrja með sé rétt nóg til af drykkjarvatni til að fullnægja þarfir allra 100 íbúa. Nema hvað, einn daginn fer rennsli frá lindinni að dragast saman og minnkar um 10%. Það býr til skort á drykkjarvatni og íbúarnir reyna að yfirbjóða hvorn annan á markaði til að fá sinn skammt af vatni. Í fyrstu hækkar verðið, sem verður til þess að sumir (þessi 10% óheppnu) eiga ekki lengur efni á vatni. En fyrr en seinna gerist það að þessi 10% deyja úr þorsti. Jafnvægi myndast þá aftur á markaði: það er rétt nóg til af vatni fyrir þessa 90 íbúa sem eru eftir og allar líkur á því að verðið lækki aftur. Yrði hagfræðingur fenginn til að greina stöðuna myndi hann skoða hvernig verð á vatni hefur þróast, og þar sem verðið væri það sama og í upphafi sögunnar myndi hann komast að þeirri niðurstöðu en enginn skortur á vatni sé til staðar og að dánarorsök þeirra 10 íbúa sem létu lífið hljóti að vera eitthvað annað en þorsti.
Svipað fyrirbæri virðist gerast með olíuna: hún er blóðrás heimshagkerfisins eins og við höfum byggt það upp og skortur á henni leiðir ýmist til verðbólgu eða gjaldþrota og uppsagna, sem leiðir aftur til þess að eftirspurn eftir olíu minnkar og olíuverðið nær jafnvægi á ný.
Íslenskt hagkerfi er engin undantekning frá þessu enda eru allar helstu atvinnugreinar landsins háðar olíu, ekki síst ferðaþjónustan. Á meðan svo er mun skortur á olíu alltaf leiða til óstöðugleika, en margir sérfræðingar í orkumálum hafa varað við því að framleiðsla á olíu sé líkleg til að dragast saman á næstu árum og áratugum. „Góð hagstjórn“, „aðhald“ og „þetta reddast“-viðhorfið munu ekki breyta lögmál náttúrunnar þegar kemur að óendurnýjanlegum auðlindum.
Í þessari stöðu eru okkur eru aðeins tveir vegir færir: annað hvort að vonast eftir öðru olíuæði (sem mun að öllum líkindum aldrei koma) og telja okkur trú um að þetta sé „allt að koma“, eða lyfta hausinn upp úr sandinum, bretta upp ermarnar og hefjast handa við að finna eitthvað Plan B sem gerir okkur kleift að afkola hagkerfið okkar. Verkefnið er gígantískt, enda engin einföld eða auðveld leið til að skipta olíu út fyrir aðra auðlind, en fyrri kosturinn (afneitunin) leysir engan veginn vandann og mun aðeins leiða til vonbrigða, ráðaleysis og vaxandi pólitískrar upplausnar...
Comments