top of page
Writer's pictureJean-Rémi Chareyre

Pólitískur óstöðugleiki: hið nýja normið?


Ríkisstjórn Michel Barnier forsætisráðherra Frakklands er fallin eftir aðeins þriggja mánaða stjórnarsetu.

Nú berast okkur fréttir af því að ný ríkisstjórn Frakklands, sem var mynduð fyrir aðeins þremur mánuðum eftir þingkosningar þar í landi, er nú fallin eftir að vantrauststillaga gegn Barnier forsætisráðherra var samþykkt á þinginu. Ýmsir fjölmiðlar eru að gera þessum atburðum og aðdraganda þeirra góð skil og hér verður því ekki farið út í umfjöllun um stjórnkerfi Frakka, sem getur reynst örlítið framandi frá sjónarhorni Íslendinga, eða um önnur smáatriði sem gætu hafa haft áhrif á þessa niðurstöðu.

Aðalatriðið er að þessi atburður er hluti af ákveðnum mynstri: pólitískur óstöðugleiki er að aukast í Evrópu. Í byrjun nóvember voru fluttar fréttir af því að samsteypustjórn Ólafs Scholz í Þýskalandi væri sprungin og boðað hefði verið til kosninga í febrúar, eða aðeins þrjú ár eftir stjórnarmyndun. Ef við förum aðeins lengra aftur í tímann getum við rifjað upp ófarir íhaldsmannaflokksins í Bretlandi og afsögn forsætisráðherrans Liz Truss eftir aðeins 49 daga í embætti, í lok árs 2022.


Það er líka staðreynd, þegar rýnt er í skoðanakannanir, að nýjar ríkisstjórnir missa yfirleitt fylgi mjög hratt eftir kosningar og eiga erfitt með að halda velli. Fjölmiðlar flytja okkur sífellt fréttir af þessu en oft vantar sannfærandi greining og skýring á þessu ástandi: hvað er að gerast í Evrópskum stjórnmálum og reyndar líka í ýmsum öðrum löndum, þar sem þessi þróun virðist vera ráðandi? Oft er bent á bága efnahagsstöðu þeirra ríkja sem um ræðir, enda öllum ljóst að efnahagur hefur áhrif á stjórnmál, en þá erum við ekki búin að svara spurningunni, heldur aðeins færa hana til: ef slæm efnahagsleg staða útskýrir pólitískan óstöðugleika, hvað skýrir þá þessa slæmu efnahagsstöðu?

Ýmsar tilgátur hafa verið uppi hvað það varðar, en flestar þeirra virðast snúast um pólitískan áróður af einhverju tagi frekar en að byggjast á vandaðri greiningu á ástandinu eins og hann blasir við okkur. Tökum nokkur dæmi um algengustu skýringar.



Er stöðnun afleiðing af misgjörðum Evrópusambandsins?


Í nýafstöðnum kosningum myndaðist nokkur umræða um kosti og galla þess fyrir Ísland að gerast aðili að ESB. Helstu andstæðingum ESB-aðildar var tíðrætt um þá efnahagsstöðnun sem einkenndi mörgum ríkjum sambandsins og af þeirra málflutningi mátti ráða að efnahagsleg stöðnun væri afleiðing þess að vera hluti af sambandinu. Það er hins vegar mjög einfalt að sýna að þessi skýring gengur ekki upp með því að taka aðeins örfá dæmi úr raunheimum: Bretland er nú gengið úr Evrópusambandinu og það er ekki að sjá að hagvöxtur hafi tekið við sér eftir þann gjörning. Í fyrra mældist hagvöxtur 0,1% þar í landi en fyrir árið 2024 stefnir hann í 1%. Til samanburðar mældist hann gjarnan 3-5% á tímabilinu 1980-2000, þrátt fyrir veru Bretlands í sambandinu þá.

Pólland er annað dæmi sem sýnir að ESB-kenningin heldur ekki vatni: þar hefur mælst mjög kröftugur hagvöxtur á síðustu 20 árum, 4-5% að meðaltali, og engin merki um að innganga í sambandið árið 2004 hafi haft neikvæð áhrif á slíkan vöxt.




Eru skattar of háir?


Önnur kenning, sérlega vinsæl hjá þeim sem aðhyllast skattalækkunum, snýr að skattastefnu Evrópuríkja. Samkvæmt henni hamla skattarnir hagvöxt. Vandinn við þessa kenningu er tvenns konar: í fyrsta lagi sýnir tölfræðin að á heildina litið er engin fylgni milli skattbyrði í einstökum löndum annars vegar og hagvöxtur í þessum sömu löndum hins vegar. Norðurlönd eru ágætis dæmi um það: þar hefur hagvöxtur verið heldur meiri en í ríkjum Suður-Evrópu þrátt fyrir að skattbyrðin sé hærri. Tilraunir til að örva hagvöxt með því að lækka skatta í stórum stíl hafa oftast mistekist: stjórnartíð Ronald Reagans í Bandaríkjunum er ágætis dæmi um það: skattalækkanir hans leiddu til þess að skuldir ríkisins nær þrefölduðust á aðeins átta ára tímabili. Áhrifin á hagvöxt voru ekki sérlega sannfærandi: í stjórnartíð Reagans mældist hagvöxtur 3,6% að meðaltali, en hann hafði mælst 5,5% í stjórnartíð Kennedys og enn meiri í stjórnartíð Roosevelt, þegar skattar voru í sögulegu hámarki. Ys og þys út af engu, myndu sumir segja.

Hinn vandinn við þessa kenningu er að jafnvel þótt við föllumst á að skattalækkanir geti leitt til meiri hagvaxtar með því að auka samkeppnishæfni viðkomandi ríkis, virkar meðalið aðeins ef ekkert annað ríki notar sömu aðferðina. Það er að segja, ef aðeins ein þjóð lækkar skattbyrðina hjá sér um, segjum 10%, þá öðlast hún forskot á kostnað annara þjóða, en er þá ekki eins líklegt að hinar þjóðirnar bregðist við með sömu skattalækkunum? Og þá er enginn með forskot lengur, heldur sitja allir eftir í súpunni með 10% lægri tekjur til að reka velferðarkerfið.

Almenn skynsemi hlýtur líka að segja manni, að ef skattalækkanir væru einhver töfralausn til að örva hagvöxt, þá væru stjórnmálamenn, sama hversu vanhæfir og við teljum þá stundum vera, löngu búnir að finna upp á henni.




Er fæðingartíðni of lág?


Önnur algeng kenning byggir á þeirri staðreynd að fæðingartíðni hefur farið lækkandi í Evrópu og að minni fólksfjölgun leiðir til minni hagvaxtar. Aftur getum við tekið dæmi um tvö ríki sem sýna að lækkandi fæðingartíðni getur vel farið saman við hagvöxt: Pólverjar eru með ein lægstu fæðingartíðni í Evrópu og þeim hefur fækkað um 10% á síðustu 20 árum. Það hefur ekki komið í veg fyrir að þar mælist einn mesti hagvöxtur í Evrópu. Dæmi Íslands sýnir þar að auki að ef lækkandi fæðingartíðni leiðir til skorts á vinnuafli er ekkert mál að bæta úr því með því að grípa til innflutts vinnuafls.

Annað merki um að skortur á vinnuafli sé ekki sökudólgurinn er sú staðreynd að í löndum þar sem hagvöxtur mælist minnstur er atvinnuleysi gjarnan mjög hátt. Ef um skort á vinnuafli væri að ræða myndi maður þvert á móti búast við mjög lágt atvinnuleysi.



Eru Bandaríkin betri fyrirmynd?


Sumir þeirra sem benda á efnahagslega stöðnun eða jafnvel „hnignun“ Evrópu nefna gjarnan Bandaríkin sem betra fordæmi. Þar hefur hagvöxtur vissulega mælst hærri en í Evrópu eftir efnahagshrunið 2008 (það hefur þó ekki komið í veg fyrir pólitískan glundroða). En hvað hefur gert Bandaríkjunum kleift að vaxa hraðar en Evrópa? Það er fyrst og fremst olíu- og gasiðnaðurinn sem tók hressilega við sér á árunum 2010-2018, en á aðeins 8 árum tvöfaldaðist olíuframleiðsla Bandaríkjanna eftir að ný aðferð við olíuvinnslu (vökvabrot) gerði iðnaðinum kleift að sækja nýjar olíulindir.

Reynsla Bandaríkjanna er skýrt dæmi um að gamla góða máltækið „peningar vaxa ekki á trjánum“ á alltaf jafn vel við. Sú „verðmætasköpun“ sem stjórnmálamönnum er svo tíðrætt um byggir á nýtingu nátturuauðlinda. Ef þessar auðlindir eru ekki til staðar þýðir lítið að krukka í skattkerfi, agnúast út í Evrópusambandið eða barma sér yfir lækkandi fæðingartíðni.


Hagvöxtur hefur líka verið að hægja á sér í Bandaríkjunum þó hann hafi verið aðeins meiri en í Evrópu á síðustu árum.


Evrópa var einu sinni rík af ýmsum náttúruauðlindum: Bretar komu iðnaðarbyltingunni af stað með því að sækja í kolabirgðirnar sínar. Frakkland, Ítalía, Þýskaland og fleiri Evrópuþjóðir voru einnig nokkuð rík af kolaauðlindum og fylgdu á eftir. Síðar komu olían og jarðgasið: Bretland, Danmörk, Holland og Noregur fengu töluvert af þeim auðlindum í vöggugjöf. Evrópulönd voru líka nokkuð rík af ýmsum málmum og stálframleiðsla var ein helsta efnahagsstoð Vestur-Evrópu á fyrri hluta tuttugustu aldar. Í fyrstu virtist framboð af þessum auðlindum nánast takmarkalaust og hagvöxtur mældist hvergi hægri en í Evrópu. En nú er svo komið að margar þessar auðlindir eru af skornum skammti á gömlu álfunni. Bretar, Frakkar og Ítalir eiga lítið sem ekkert eftir af ódýrum kolum, olíu og gasi.

Evrópa þarf þess vegna að reiða sig í síauknum mæli á innflutningi. Aðgangur að orkuauðlindum er sérstaklega krítískur, eins kom bersýnilega í ljós í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu: Þýskaland, sem margir töldu vera „dúxinn“ í efnahagsmálum, byggði sína velgengni að mörgu leyti á innflutningi ódýrrar orku í formi jarðgas frá Rússlandi. Holland, Danmörk og Bretland, sem voru einu sinni mikilvæg gasframleiðsluríki fyrir álfuna, eru nú þegar komin langt með að klára gasbirgðir sínar og gátu því lítið gert til að vega upp á móti skerðingum Pútíns. Í dag þurfa ríki Evrópusambandsins að flytja inn 95% af olíunni og 85% af jarðgasi sem notað er innan sambandsins.



Hin raunverulega uppspretta hagvaxtar


Þessi stutta yfirferð yfir þróun efnahagsmála í Evrópu segir okkur tvennt: í fyrsta lagi að hagvöxtur byggir á nýtingu náttúruauðlinda, og þar sem náttúruauðlindir er takmarðar er óhjákvæmilegt að hagvöxtur sé líka takmörkum háður. Í öðru lagi, að það sem er að gerast í Evrópu þessa daga er aðeins forsmekkurinn að því sem gerast skal alls staðar annars staðar í heiminum: fyrr eða seinna munu olíulindir Bandaríkjamanna klárast, fyrr eða seinna munu auðlindir okkar Íslendinga klárast. Það væri því ef til vill skynsamlegra fyrir íslenska stjórnmálamenn að forðast hrokafullar yfirlýsingar í garð annarra Evrópuríkja. Þórðargleðin fer þeim ekki sérstaklega vel og mun eldast illa. Reyndar eru nú þegar merki um að hagvöxtur sé kominn á þrotum á Íslandi eins og annars staðar: í ár stefnir aðeins í 0,1% hagvöxt og þegar meðalhagvöxtur á mann á hvern áratug er reiknaður út sést að hann hefur verið á niðurleið síðan 1980.


Þessi staðreynd þarf ekki að vera harmleikur í sjálfu sér, svo lengi sem við horfum framan í þessa stöðu af auðmýkt og yfirvegun, og gerum það sem þarf til að búa okkur undir hana. Það er meira að segja hægt að líta hana jákvæðum augum: hagvöxtur leiðir iðulega til meiri losunar gróðurhúsalofttegunda, þannig að við þurfum hvort sem er að segja skilið við hann ef við ætlum á annað borð ná einhverjum árangri í loftslagsmálum.

Við megum þó ekki vanmeta möguleg vandræði sem þessu munu fylgja: lýðræðiskerfin okkar höfum við byggt upp á tímum mikils hagvaxtar og þau hafa virkað ágætlega á meðan hagvöxtur var normið: það er tiltölulega auðvelt fyrir stjórnmálamenn að afla fylgis og halda öllum góðum á meðan hagvöxtur er til staðar: þá er hægt að gefa einhverjum án þess að taka frá öðrum eða auka á skuldir ríkisins (með skattalækkunum, umbótum á velferðarkerfi og fleira). Þegar hagvöxturinn gefur eftir er hins vegar ekki lengur í boði að dreifa sleikjóum hægri vinstri. Það er ekki lengur hægt að gefa einum nema þá að taka frá öðrum, og þá æsast leikarnir.

Þetta mega  „valkyrjurnar“ hafa í huga við hönnum „plansins“ sem við bíðum öll spennt eftir. Stjórnarsáttmáli sem byggir á óraunhæfum hugmyndum um blússandi hagvöxt og ævintýralega  „verðmætasköpun“ í framtíð mun að öllum líkindum valda vonbrigðum…


19 views

Comentários


Post: Blog2_Post
bottom of page