top of page

Tollar á kínverska rafbíla: hvers vegna?

  • Writer: Jean-Rémi Chareyre
    Jean-Rémi Chareyre
  • Oct 11, 2024
  • 3 min read

Samkvæmt fjölmiðilninum Euronews hefur Evrópusambandið samþykkt að innleiða innflutningstolla á kínverska rafbíla, sem munu nema allt að 35% af verði bílsins. Þessi nýi skattur mun að öllum líkindum gilda strax frá og með nóvember-mánuði. En hvers vegna?


Flutningaskip á vegum kínverska rafbílaframleiðandans BYD býr sig undir siglingu en bílarnir eru ætlaði til útflutnings.

Aðdragandinn er þessi: markmiðið um kolefnishlutleysi felur í sér að notkun á jarðefnaeldsneyti verði hætt, og þá ekki síst notkun á olíu. Þegar kemur að samgöngum er rafbíllinn eitt þeirra tækja sem getur gert samfélögum kleift að ná þessu markmiði, þó það sé vissulega ekki eina tækið og muni ekki duga eitt og sér.


Með öðrum orðum mun bílaiðnaður heimsins þurfa að fara í gegnum miklar og snöggar breytingar til þess að skipta út brunavélar fyrir rafvélar. Í Evrópu er rótgróinn bílaiðnaður en framtíð hans er í húfi þegar kemur að samkeppni við kínverska rafbílaframleiðendur sem hafa þegið háa ríkis- og sveitastyrki á undanförnum árum.


Sögulega séð hefur Evrópusambandið vanist því að líta undan þegar kemur að bjagaðri samkeppni þar sem slíkt hefur til skamms tíma komið neytendum til góða: ef varan er ódýrari vegna þess að hún er niðurgreidd af einhverju ríki utan sambandsins, látum neytandann njóta góðs af því! Sú stefna er hins vegar skaðleg evrópskum iðnaði til langs tíma þar sem bæði störf og tekjur eru í húfi, en í dag stendur bílaiðnaðurinn undir 10 milljónir beinna og óbeinna starfa í aðildarríkjum ESB.


Við þetta bætist að veikari iðnaður gerir álfuna háðari Kína og öðrum framleiðslulöndum. Innrás Rússa í Úkraínu hefur ef til vill kennt ráðamönnum sambandsins að varkárni getur borgað sig þegar kemur að alþjóðaviðskiptum, ekki síst þegar um ræðir leiðtogar og ríkisstjórnir sem hafa takmarkaðan áhuga á lýðræði, mannréttindum, alþjóðarétti eða umhverfismálum.



„Heimsmarkaðir eru nú að drukkna undir ódýra kínverska rafbíla. Og söluverðinu er haldið niðri með himinháum ríkisstyrkjum,“ sagði Ursula von der Leyen við Evrópuþingmenn í Strassborg í fyrra.

Eftir Covid-faraldurinn og innrásina í Úkraínu hefur ákveðin stefnubreyting átt sér stað hjá ESB. Sambandið hefur áttað sig á sínum veikleikum og á mikilvægi þess að sporna gegn undirboðum af hálfu annara ríkja. Í þessu tilfelli reyndist Þýskaland andsnúið hugmyndinni, þar sem Kína er orðið mikilvægur markaður fyrir framleiðslu Þjóðverja, og ríkisstjórn þeirra hefur varað við mögulegum hefndaraðgerðum að hálfu Kínverja. Að þessu sinni urðu Þjóðverjar þó að beygja sig undir vilja meirihlutans, en 10 þjóðir kusu með tillögunni á móti 5 sem kusu gegn henni, og 12 aðildarþjóðir sátu hjá.



Það er reyndar ekki ólíklegt að Kína grípi til einhverra hefndaraðgerða í formi tolla á innflutningi frá Evrópu, en verndarstefna Bandaríkjanna (Inflation Reduction Act) hefur gert Kínverja háðari útflutningi til Evrópu og bætt þannig samningsstöðu ESB gagnvart Kína, sem hefur þar af leiðandi varla efni á viðskiptastríði eins og stendur.


En þessi ákvörðun ESB er ekki eingöngu góðar fréttir fyrir sjálfstæði álfunnar og heilbrigði bílaiðnaðarins, heldur líka fyrir loftslagið.

Rafbílar eru almennt séð betri lausn en eldsneytisbílar vegna þess að notkun þeirra leiðir ekki til kolefnislosunar. Framleiðsla þeirra getur hins vegar leitt til töluverðrar losunar þar sem gröftur, vinnsla á málmum og framleiðsla bílanna og rafhlöðu þeirra kallar á mikla orkunotkun. Þessi orka er annars vegar í formi olíu (fyrir gröftur og flutning) og hins vegar í formi raforku (fyrir framleiðslu í verksmiðju).

Þar sem kolefnislosun frá raforkuframleiðslu er mjög misjöfn eftir löndum þýðir þetta að heildarkolefnisspor rafbíls (framleiðsla + notkun og förgun) getur sömuleiðis verið mjög misjafnt eftir því hvar framleiðslan á sér stað. Þar sem raforkuframleiðsla í Evrópulöndum er síður kolefnisdrifin en í Kína mun loftslagið líka „græða“ á tollastefnu Evrópusambandsins, en samkvæmt nýlegri skýrslu frá hugveitunni Transport and Environment gæti framleiðsla á bílarafhlöðum í Evrópu leitt til þess að kolefnisspor bílarafhlöðu yrði allt að 62% lægra en í Kína.



Comments


Post: Blog2_Post
bottom of page