top of page
Writer's pictureJean-Rémi Chareyre

Vara við meiriháttar skorti á kopar eftir 2025

Alþjóða Orkustofnunin (IEA) varar við því í nýrri skýrslu að framboð af kopar og öðrum málmum muni ekki duga til að fullnægja eftirspurn miðað við áætlanir um orkuskipti og kolefnishlutleysi árið 2050. Framleiðsla í mörgum eldri námum hefur verið að dragast saman vegna skorts á hráefni og framleiðsla nýrra náma sem þegar eru á teikniborðinu mun ekki duga til að vega upp á móti því. Framboð af kopar í heiminum gæti dregist saman um allt að 30% fram til 2040.


Mynd: Koparnáma í Perú

Framleiðsla á ýmsum tækjum og vörum sem eru nauðsynleg fyrir orkuskiptin, svo sem rafbílum, rafhlöðum, vindmyllum og sólarsellum, kalla á stóraukna málmframleiðslu, en óvíst er hvort framboð af slíkum málmum verði nægilegt á næstu áratugum. Stofnunin varar líka við að lágt verð á slíkum málmum sé ekki endilega góðar fréttir: Lágt verð er vissulega jákvætt fyrir neytendur en hefur letjandi áhrif þegar kemur að fjárfestingu í nýjar námur og verksmiðjur. Þess vegna sé lágt verð í dag ekki trygging fyrir fullnægjandi framboð og lágt verð í framtíðinni. „Nægilegt framboð á mörkuðum í dag er ekki endilega merki um bjarta framtíð,“ segir í skýrslunni.


Kopar og liþíum eru þeir málmar sem eru líklegastir til að skorta. Rafbíll inniheldur um það bil tvöfalt meira magn af kopar en bíll með brunahreyfli (50 kíló að meðaltali, en magnið er þó breytilegt eftir stærð bílsins). Vindmyllur kalla sömuleiðis á mikla koparnotkun, sérstaklega þegar um vindmyllur á sjó er að ræða, en þá þarf að leggja langa koparkapla undir sjó til að tengja vindmyllurnar við raforkukerfið.

Koparframleiðsla er þar að auki á hendur tiltölulega fárra ríkja í heiminum og því má lítið bregða út af ef framboð á að halda áfram að aukast í takti við eftirspurn. 33% af frumframleiðslu heimsins fer fram í aðeins tveimur ríkjum í Suður-Ameríku, Chile og Perú, og um 50% af hreinsun og bræðslu fer fram í Kína.


Mynd: International Energy Agency (IEA)

Samkvæmt sviðsmynd sem stofnunin kallar NZE (Net Zero Emissions eða kolefnishlutleysi) þyrfti framleiðsla á kopar að aukast um 30% fram til 2040, en mun hins vegar dragast saman um 20% samkvæmt björtustu spám IEA. Með öðrum orðum verður framboð af kopar aðeins helmingurinn af því sem það þyrfti að vera samkvæmt ofangreindri sviðsmynd.

Stofnunin er ekki mikið bjartsýnni hvað liþíum varðar: Henni reiknast til að framleiðsla á liþíum þurfi nánast að tífaldast fram að 2040, en að hún muni í besta falli aukast lítillega.


Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að NZE-sviðsmynd stofnunarinnar byggir á framtíð þar sem orkuskipti byggja fyrst og fremst á tæknilausnum (rafvæddri orkuframleiðslu og samgöngukerfum), en með því að byggja orkuskiptin á samfélagslegum breytingum samhliða tæknilegum breytingum er hægt að draga úr líkum á hráefnisskorti. Dæmi bílanna er lýsandi: Orkuskipti sem miða eingöngu að því að skipta út bensínbíla fyrir rafbíla kalla á mikla málmframleiðslu, en orkuskipti sem miða um leið að því að fækka bílum og draga úr stærð þeirra eru mun líklegri til að standast væntingum.


Mynd: Liþíum-náma í Chile

Þetta er þó ekki leiðin sem íslensk stjórnvöld hafa kosið að fara hingað til. Samkvæmt tölum Samgöngustofu fjölgaði fólksbílum um 37% milli 2012 og 2022 og þótt hlutfall rafbíla hafi verið að aukast eru bensín- og dísilbílar fleiri í dag en þeir voru árið 2012. Þar að auki eru seldir rafbílar að verða sífellt stærri og þyngri, með tilheyrandi aukningu í eftirspurn eftir málmum.



Mynd: Umferð á Vesturlandsvegi, Reykjavík.

100 views

留言


Post: Blog2_Post
bottom of page