top of page
Writer's pictureJean-Rémi Chareyre

Ólíkt hafast þær að...


Ólíkt hafast þeir að íslenskir og breskir umhverfissinnar. Sú til vinstri kallar sig reyndar ekki umhverfissinna en er efnileg íþróttakona frá Bretlandi, Innes Fitzgerald að nafni, aðeins sextán ára að aldri.

Innes hefur komist í fréttirnar í Bretlandi eftir að hafa sent Frjálsíþróttasambandi Bretlands bréf þar sem hún afþakkar boð til að taka þátt í heimsmeistaramótinu í víðavangshlaupum í Ástralíu. Hún telur einfaldlega ekki réttlætanlegt að fljúga hálfa leið yfir hnöttinn með tilheyrandi hlýnunaráhrif á tímum yfirvofandi loftslagshamfara. Frá þessu greina bresku miðlarnir BBC og The Guardian.


„Það eru mikil forréttindi að fá tækifæri til að keppa fyrir hönd Bretlands,‟ segir Innes í bréfinu. „Mér þykir hins vegar mjög leitt að þurfa að hafna þessu boði.‟

Innes býr í Devon í Bretlandi en Ástralía er í fleiri þúsund kílómetra fjarlægð. Flugferð frá London til Sidney veldur losun upp á 2,5 tonn af koltvísýringi, en þar sem losun í háloftunum hefur um það bil tvöfalt meiri hlýnunaráhrif en á jörðu niðri samsvarar það 5 tonn Co2-ígilda.

„Ég var aðeins níu ára þegar Parísarsáttmálinn var undirritaður (Cop21). Nú átta árum síðar er losunin enn að aukast og færir okkur sífellt nær loftslagshamförum,‟ segir síðan í bréfinu.


Styrkur Co2 (ppm) í andrúmsloftinu og Cop-ráðstefnur síðan 1960. Heimild: Nationalobserver.com

„Ég varð að gera eitthvað...‟


Afreksíþróttamenn sem æfa stíft og fórna svo miklu fyrir íþróttina hafa mikla hagsmuni af því að taka þátt í keppnum, en þrátt fyrir mikla hæfileika og metnað telur þessi efnilega íþróttakona ekki réttlætanlegt að leggja í ferðalagið til Ástralíu:

„Mér líður illa við að fljúga vitandi það að fólk gæti misst lífsviðurværi sitt, heimili sitt og ástvini sína vegna þessa. Það minnsta sem ég get gert er að lýsa samstöðu við þá sem standa í víglínu loftslagsvárinnar,‟ segir síðan í bréfinu.

Innes fékk aðeins mjög hnitmiðað svar frá Frjálsíþróttasambandinu, sem neitaði að tjá sig frekar um málið við fréttamenn BBC.

„Ég varð að gera eitthvað til að vekja athygli á þessu,‟ segir Innes í viðtali við BBC. „Svo að þegar ég fékk tækifæri til að fara til Ástralíu þá hugsaði ég: nú verð ég að segja eitthvað.‟


Innes með gullið eftir keppni í Belgíu. Janúar 2023.

Þetta er reyndar ekki í fyrsta skipti sem ungi kappinn lætur til sín heyra. Hún tók þátt í evrópumótinu í víðavangshlaupi á Ítalíu í fyrra en neitaði þá að fljúga þangað. Í staðinn ferðaðist hún með lest alla leið frá Devon í Bretlandi til Torino á Ítalíu en ferðalagið tók um 20 klukkustundir. Það kom þó ekki í veg fyrir að Innes næði fjórða sætinu í keppninni.

„Þetta er virkilega erfitt því það eru takmörk fyrir því hversu mörg mót er hægt að taka þátt í með sama fólkinu heima fyrir. En ég held að það sé neyðarástand í loftslagsmálum, og neyðarástand kallar á neyðarúrræði,‟ segir Innes að lokum.



„Meanwhile, in Iceland...‟


Um svipað leyti og Innes sendi bréf sitt til Frjálsíþróttasambands Bretlands sendi forsætisráðherran okkar Katrín Jakobsdóttir annars konar bréf til allra leiðtoga ESB-landa. Í því bréfi lýsti hún „þungum áhyggjum‟ af fyrirætlunum ESB um að auka álögur á flugiðnaðinn, en um þetta skammarbréf má lesa á vefsíðu Stjórnarráðs Íslands. Eins og lýst er á síðunni fellur flugið innan ESB- og EES-landa undir viðskiptakerfi með losunarheimildir, svokallað ETS-kerfi, en samkvæmt því kerfi þarf iðnaður sem leiðir af sér mikla losun gróðurhúsalofttegunda að kaupa losunarkvóta á markaði með losunarheimildum. Í dag eru 30-35% af losunarheimildum veittar án endurgjalds en markmið ESB er að allar heimildir verði boðnar upp ekki síðar en 2027.


Af vefsíðu Stjórnarráðsins: „Við viljum undanþágu!‟

Í stuttu máli þýðir þetta að flugfélög munu þurfa að borga meira í losunarheimildir. Afleiðingin af því er að flugmiðar gætu hækkað í verði sem gæti síðan leitt til minni eftirspurnar eftir flugi. Þetta finnst forsætisráðherra vera hinn versti skandallinn...



Alþjóðaflugið skýst fram úr stóriðjunni


Svona til upprifjunar hefur losun frá flugi á Íslandi þrefaldast á síðustu 12 árum og er orðin meiri en losun frá málmaframleiðslu. Gangi spár Ferðamálastofu eftir mun fjöldi ferðamanna aukast enn frekar um 50% fram til ársins 2030 en þá gæti losun frá flugi orðið um það bil 3,7 milljónir tonna Co2-ígilda á ári, sem er fjórfalt meira en losun frá öllum vegasamgöngum.


Losun frá alþjóðaflugi til og frá Íslandi gæti fjórfaldast frá 2010 til 2030 ef spár ganga eftir. Heimild: Orkustofnun og Ferðamálastofa.

Af einhverjum furðulegum ástæðum er alþjóðlegt flug undanþegið eldsneytissköttum sem þýðir að flugfélög fá að brenna eldsneyti skattfrjálst á meðan kolefnisgjald, virðisaukaskattur og fleiri gjöld leggjast á bílaeigendur. Um þessar mundir kostar líter af þotueldsneyti á flugvelli í London um 0,78 Evrur eða 120 krónur, á meðan líter af dísilolíu á bensínstöð á Íslandi kostar um 320 krónur, og það þrátt fyrir að líter af þessu sama þotueldsneyti valdi tvöfalt meiri hlýnun en líter af dísilolíu á bíl. Millilandaflug er sem sagt um það bil ódýrasta aðferðin við að rústa loftslaginu.


Til viðbótar við þessa ríflegu niðurgreiðslu á eldsneytiskostnaði hefur flugfélagið Icelandair Group fengið uppsagnarstyrki frá ríkinu upp á 3,7 milljarða í Covid-faraldrinum, en þrátt fyrir erfiðleikar á meðan á faraldrinum stóð hafa laun forstjórans hækkað myndarlega að undanförnu og eru nú komin í ríflega 7 milljónir króna á mánuði. Það borgar sig greininlega að stýra eitt mest mengandi fyrirtæki landsins...

Hnattræn losun frá flugi hefur aukist mjög hratt á síðustu árum og er nú orðin um 4% af allri losun á heimsvísu, og það þrátt fyrir að 90% jarðarbúa hafi aldrei stigið um borð í flugvél. Aðeins 1% af íbúum jarðarinnar bera ábyrgð á 50% af losun frá flugi og flugfarþegar viðurkenna sjálfir að flugferð þeirra hafi ekki verið nauðsynleg í 50% tilfella.



„Markviss hagsmunagæsla‟


Einhver hefði kannski haldið að tími væri til kominn að stíga á bremsuna en forsætisráðherra finnst það bara alls ekki. Þvert á móti ætlar hún að stunda „markvissa hagsmunagæslu‟ fyrir hönd flugiðnaðarins, eins og það er orðað á vefsíðu stjórnarráðsins.

Samkvæmt sömu vefsíðu vilja íslensk stjórnvöld „leggja áherslu á sérstöðu landsins‟ sem „fjarlægt eyríki‟ og vara við að auknar álögur á flugiðnaði gætu haft neikvæð áhrif á hagkerfi landsins.



Katrín ætlar að láta Ursula von der Leyen heyra það.

Stöldrum aðeins við...

Samkvæmt sömu rökum geta olíuframleiðsluríki á borð við Sádí Arabíu eða Sameinuðu Furstadæmin ekki dregið úr olíuframleiðslu sinni þar sem þau búa líka við ákveðna „sérstöðu‟ og minni olíusala gæti haft „neikvæð áhrif‟ á hagkerfi þeirra (hún er víst lifibrauð þeirra). Þjóðverjar geta heldur ekkert dregið úr kolabrennslu því það mundi hafa neikvæð áhrif á hagkerfi þeirra, og svo koll af kolli. Ef þeir sem lifa á því að selja jarðefnaeldsneyti geta ekkert aðhafst vegna eigin hagsmuna, og þeir sem brenna jarðefnaeldsneytið geta heldur ekkert aðhafst vegna eigin hagsmuna, hver á þá að aðhafast eitthvað? Þegar stórt er spurt...

Það er fátt um svör á vefsíðu stjórnarráðsins hvað þetta varðar. Hins vegar er tekið fram í bréfinu (eftir alla hagsmunagæsluna) að forsætisráðherrann vilji þrátt fyrir allt „árétta metnað Íslands í loftslagsmálum.‟

Úfff... Með svona vini þarf loftslagið enga óvini...


Comments


Post: Blog2_Post
bottom of page